Flatey Pizza og besta gelatóbúð í heimi, Gaeta Gelato, hafa sameinað krafta sína og eru nú eitt og sama fyrirtækið.
Við á Flatey höfum fylgst með vegferð stofnandans Michele Gaeta frá Bologna frá upphafi, enda markaði opnun fyrstu ísbúðarinnar á Aðalstræti tímamót hér á landi þegar loksins var hægt að nálgast hér ósvikinn (og alveg fáránlega góðan) ítalskan gelató.
Gaeta Gelato framleiðir gelató-ís frá grunni úr sérinnfluttu ítölsku hráefni og íslenskri mjólk. Það var eldhuginn Michele Gaeta sem opnaði fyrstu ísbúðina við Ingólfstorg árið 2020 í samstarfi við vinafólk sem hefur framleitt gelató í Bologna síðustu þrjá áratugi við góðan orðstýr.
Hvað gerir gelató svona sérstakan? Gelató er ítölsk uppfinning og dálítið ólíkur hefðbundnum rjómaís. Hann er fituminni, þéttari í sér og alla jafna mun bragðmeiri (og svo miklu betri ef þú spyrð okkur).
Gelató er þeyttur á lágum hraða og unninn úr hágæða hráefni án aukaefna sem skilar sér í dásamlega silkikenndri og rjómakenndri áferð. Á meðal klassískra bragðtegunda eru stracciatella, pistasíu og saltkaramellu en á Gaeta má finna minnst 20 tegundir af gelató hverju sinni - sem og aðrar ítalskar kræsingar eins og tiramisú, ískökur, canoli og baba.
Við erum í skýjunum og hlökkum til að segja ykkur meira á næstunni. Þangað til hvetjum við alla sanna sælkera til að koma við á Gaeta á Aðalstræti, Hlemmi mathöll eða Höfða mathöll.
OPNUNARTÍMI
* Opið til 21:00 á Garðatorgi, Kringlunni og Selfossi