Undanfarin misseri höfum við verið önnum kafin við opnun nýja NEÓ staðarins við Laugaveg 81 og um liðna helgi opnuðu dyrnar loksins formlega, en NEÓ Pizza er systurstaður Flatey Pizza, fyrir þá sem ekki vita.
Laugavegur 81 stendur á mótum Laugavegs og Barónsstígs og segja má að hornið sé fornfrægt pizzahorn í miðbænum. Húsið var byggt 1929 og hýsti verslanir það sem eftir lifði 20. öldinni. Má þar meðal annars nefna gullfiskabúðina Gullfiskabúðina og verslunina Verzlunina.
Uppúr aldamótum urðu kaflaskil þegar ungur athafnamaður frá Bandaríkjunum sameinaði jarðhæðina við aðra hæð hússins og opnaði beyglustað og kaffihús, Reykjavík Bagel Company. Staðurinn varð þó tiltölulega skammlífur en fáeinum árum síðar tók við keflinu pítsustaðurinn Reykjavík Pizza Company. Pítsukeðjan Eldmiðjan tók svo þann rekstur yfir og rak um nokkurra ára skeið vinsælan pítsustað í húsinu eða til ársins 2020. Síðan þá hefur jarðhæðin staðið að mestu auð, þar til nú.
Þetta er útibú númer tvö hjá NEÓ Pizza sem opnaði inni í Hafnartorgi Gallery sumarið 2022. NEÓ reiðir fam gamaldags New York-pítsur: kraftmeiri og stökkari útgáfa af upprunalegu ítölsku pítsunni, þar sem hefðirnar eru ekki eins fastar í skorðum og einfaldleikinn flóknari í áleggjavali.
Í raun og veru er um að ræða pítsugerð þá sem fyrstu ítölsku innflytjendur í Ameríku tóku sér fyrir hendur í byrjun 20. aldarinnar. Eins konar hóflega Ameríkuvædd Napólí-pítsa; bökuð í steinofni en ekki eldheitum eldofni, frjálslegri í áleggjum og bæði stökkari og bragðmeiri eins og áður sagði.
NEÓ fær nú þannig loksins sinn eigin veitingastað en staðurinn tekur um 50 manns í sæti. Stemningin er hæfilega ‘casual’. Þú pantar við afgreiðsluborðið, tekur númer, færð þér sæti og við komum með pítsuna til þín þegar hún er tilbúin.
Í bland við New York pítsur skipar hvers kyns bjór stóran sess á staðnum en auk úrvals af kranabjór má þar finna allt að 20 tegundir af bjór í dós. Þó svo að staðsetningin í miðbænum sé ekki öllum innan seilingar þá hentar hún prýðisvel til að sækja og taka heim. Barónsstígsmegin er sérstakur inngangur til þess gerður og alla jafna nóg af lausum bílastæðum.
Við erum hæstánægð með útkomuna og hlökkum til að sjá þig á Laugaveginum í sumar 💚
OPNUNARTÍMI
* Opið til 21:00 á Garðatorgi, Kringlunni og Selfossi