Dagbók

1. október 2024
Það er ekkert launungarmál að Margherita er okkar eftirlætis pítsa. Bragðmikið deig, fior di latte mozzarella, San Marzano tómatsósa, ólífuolía og fersk basilíka mynda heilagt jafnvægi sem enginn ætti að dirfast að hrófla við. Pizza mánaðarins í október ber vott af þessu sérkennilega áhugamáli okkar. Hér hefur hinni (næstum) fullkomnu pítsu verið lyft á ennþá æðra plan. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem við gerum það á Flatey, en að þessu sinni er um að ræða metnaðarfyllstu útgáfuna að okkar mati. Einskonar Margherita Extra, Extra . Að loknum bakstri hefðbundinnar Margheritu-pizzu setjum við fyrst á pítsuna gómsætan burrata ost úr Skagafirði, þá glás af ferskri basilíku áður en við stráum yfir Feyki 24+ sem sumir vilja kalla hinn íslenska parmesan ost. Feykir 24+ er bragðmikill ostur sem hefur fengið að þroskast í 24 mánuði eða lengur - allt í senn stökkur, saltur og sætur. Fyrir alvöru Margheitu-unnendur er hér skyldusmakk á ferð. Fyrir alla hina er hér einstakt tækifæri til að upplifa fegurðina í einfaldleikanum í eitt skipti fyrir öll.
15. júní 2024
Undanfarin misseri höfum við verið önnum kafin við opnun nýja NEÓ staðarins við Laugaveg 81 og um liðna helgi opnuðu dyrnar loksins formlega, en NEÓ Pizza er systurstaður Flatey Pizza, fyrir þá sem ekki vita. Laugavegur 81 stendur á mótum Laugavegs og Barónsstígs og segja má að hornið sé fornfrægt pizzahorn í miðbænum. Húsið var byggt 1929 og hýsti verslanir það sem eftir lifði 20. öldinni. Má þar meðal annars nefna gullfiskabúðina Gullfiskabúðina og verslunina Verzlunina.
11. júní 2024
Battle of the Bakers, eða barátta bakaranna heldur áfram, en um er að ræða árlega æsispennandi keppni pítsumeistaranna á Flatey um gerð bestu pítsunnar.  Það verður hart barist í ár. Í byrjun árs átti sér stað æsispennandi undankeppni innanhúss sem fór svo að þau Benni, Lukasz, Bryndís, Emilía, Anton og Mirko leggja fram sköpunarverk sín í keppnina. Úrslitin munu ráðast í lok sumars, og pítsan sem fær bestar viðtökur frá gestum eins og þér mun bera sigur úr bítum. Og skaparinn að sjálfsögðu skapa sér ódauðlegan sess í pítsusögu þjóðarinnar. Hver veit svo nema pítsan endi svo á matseðlum framtíðar. Nú í júní er komið að reynsluboltanum Antoni sem keppir fyrir hönd Granda. Anton, eða Tony, er reynslubolti í pítsugerð en hann hefur staðið vaktina á Flatey Grandagarði með stolti undanfarin misseri. Pítsuna kýs okkar maður að kalla Sfiziosa Pizza og spreytir sig um leið á ítölskunni, en íslenska nafn pítsunnar væri einfaldlega ljúffeng pizza. Við erum að tala um töfrandi blöndu af sterku salami, gráðaosti, valhnetum og hinu fræga Hot Honey sem svo margir dýrka og dá. - SFIZIOSA PIZZA 🍯 🌶️ Salami Piccante Gráðaostur Valhnetur Hot Honey Basilíka - Sjáumst á Flatey!
5. apríl 2024
Battle of the Bakers, eða barátta bakaranna heldur áfram. Fyrir þá sem ekki vita þá er um að ræða árlega keppni pítsumeistaranna á Flatey um gerð bestu pítsunnar. Pítsa mánaðarins næstu misseri verður helguð keppninni og úrslitin ráðast í haust þegar vinsælasta pítsan liggur fyrir. Nú í apríl er komið að Bryndísi Ástu sem keppir fyrir hönd Hlemms. Bryndís hefur staðið bakvið pizzaborðið á Flatey Garðatorgi undanfarin tvö ár og hefur getið sér gott orð sem eintaklega naskur áleggjaveljari. Framlag Bryndísar er svokölluð bragðsprengja, en úr tiltölulega fersku og einföldu hráefni. Pítsan er í senn fersk, spæsí, sölt og súr og útkoman er hreint út sagt mögnuð að sögn dómnefndar. Nafnið, Parmella er samsuða úr nöfnum tveggja vinsælla pítsa á matseðli Flatey sem innblástur er sóttur til, Parma og Monella. Gefum Bryndísi orðið: „Botninn er svona Monella botn: tómatsósa, mozzarella, parmesan, oregano og smá chili flögur, svo bætti ég líka við ferskum hvítlauk. Svo fer klettasalat ofan á eftir ofninn og meiri parmesan ostur. Og svo til að gera hana smá sumarlega bætti ég ferskri sítrónusneið ofan á. Pítsan mín er að fara að vinna keppnina vegna þess að hún er fersk og höfðar til allra, hún er einfaldlega frábær!“ - PARMELLA 🌱🌶️ Klettasalat, parmesan, hvítlaukur, oregano og chili-flögur á Margheritu-grunni. Borið fram með sítrónusneið 🍋 - Sjáumst á Flatey!
12. mars 2024
Þessi tími árs, vorið, helgast af endurkomu hinnar árlegu keppni pítsumeistaranna á Flatey, Battle of the Bakers , eða baráttu bakaranna á íslenskri tungu. Það verður hart barist í ár. Undanfarna mánuði hefur átt sér stað æsispennandi undankeppni innanhúss sem fór svo að þau Benni, Lukasz, Bryndís, Emilía, Anton og Mirko munu leggja fram sköpunarverk sín í formi pítsu mánaðarins á Flatey næstu sex mánuði. Úrslitin munu þannig ráðast í lok sumars, og pítsan sem fær bestar viðtökur frá gestum eins og þér mun bera sigur úr bítum. Og skaparinn að sjálfsögðu skapa sér ódauðlegan sess í pítsusögu þjóðarinnar. Hver veit svo nema pítsan endi svo á matseðlum framtíðar, annað eins hefur jú skeð. Í marsmánuði teflir hinn ungi og efnilegi Benni fram kraftmikilli kjötveislu og teygir þar með verulega þolmörkum einfaldleikans sem einkennir Flatey-pítsurnar og Napolí pítsugerð yfir höfuð. En um leið má sjá það sköpunarsvigrúm og traust sem keppendur mega þiggja frá mótsnefnd, enda pítsurnar í Battle of the Bakers síst hugsaðar til að gera meira af því sama. Benni keppir fyrir hönd Hlemms hvar hann hefur staðið bakvið pizzaborðið undanfarin misseri. Við hvetjum kjötþenkjandi pítsuunnendur eindregið að mæta á staðinn og hvetja sinn mann til dáða! *** DRAUMUR IÐNAÐARMANNSINS -> Pepperoni -> Nduja kryddpylsa -> Beikon -> Piparostur ... á Margeritu grunni 3190,- *** Sjáumst á Flatey!
13. desember 2023
Flatey Pizza og besta gelatóbúð í heimi, Gaeta Gelato, hafa sameinað krafta sína og eru nú eitt og sama fyrirtækið. Við á Flatey höfum fylgst með vegferð stofnandans Michele Gaeta frá Bologna frá upphafi, enda markaði opnun fyrstu ísbúðarinnar á Aðalstræti tímamót hér á landi þegar loksins var hægt að nálgast hér ósvikinn (og alveg fáránlega góðan) ítalskan gelató. Gaeta Gelato framleiðir gelató-ís frá grunni úr sérinnfluttu ítölsku hráefni og íslenskri mjólk. Það var eldhuginn Michele Gaeta sem opnaði fyrstu ísbúðina við Ingólfstorg árið 2020 í samstarfi við vinafólk sem hefur framleitt gelató í Bologna síðustu þrjá áratugi við góðan orðstýr. Hvað gerir gelató svona sérstakan? Gelató er ítölsk uppfinning og dálítið ólíkur hefðbundnum rjómaís. Hann er fituminni, þéttari í sér og alla jafna mun bragðmeiri (og svo miklu betri ef þú spyrð okkur). Gelató er þeyttur á lágum hraða og unninn úr hágæða hráefni án aukaefna sem skilar sér í dásamlega silkikenndri og rjómakenndri áferð. Á meðal klassískra bragðtegunda eru stracciatella, pistasíu og saltkaramellu en á Gaeta má finna minnst 20 tegundir af gelató hverju sinni - sem og aðrar ítalskar kræsingar eins og tiramisú, ískökur, canoli og baba. Við erum í skýjunum og hlökkum til að segja ykkur meira á næstunni. Þangað til hvetjum við alla sanna sælkera til að koma við á Gaeta á Aðalstræti, Hlemmi mathöll eða Höfða mathöll .
Meira
Share by: